Frétt frá málþingi í tilefni af Evrópska tungumáladeginum
Í tilefni af Evrópska tungumáladeginum, efndu Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Samtök tungumálakennara á Íslandi, STÍL, til málþings þriðjudaginn 28. september.
Efni málþingsins var tungumálakennsla í grunn- og framhaldsskólum í ljósi nýrra laga um framhaldsskóla og yfirskrift þess, Tungumálin skapa tækifæri.
Vigdís Finnbogadóttir opnaði þingið og hvatti gesti til að halda áfram ötulli baráttu fyrir tungumálanámi í íslenskum skólum. Thor Vilhjálmsson rithöfundur afhenti menntamálaráðherra 3. eintak bókarinnar Tungumál ljúka upp heimum -- Orð handa Vigdísi sem inniheldur sýn 27 íslenskra skálda á tungumál og tungumálaþekkingu. Framsöguerindi voru þrjú og að þeim loknum pallborðsumræður.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra kynnti stefnu ráðuneytisins viðvíkjandi tungumálakennslu. Í erindi hennar kom fram að ráðuneytið muni á haustmánuðum 2010 láta vinna greinargerð um stöðu tungumálakennslu í skólakerfinu, greina vandamál og setja fram tillögur um úrbætur í nánu samstarfi við Kennarasamband Íslands, Samtök tungumálakennara á Íslandi og önnur fagfélög tungumálakennara, einnig við fulltrúa stofnana og háskóladeilda á sviði tungumálakennslu. Greinargerðin muni gagnast við gerð aðalnámskráa í erlendum tungumálum sem ráðgert er að vinna á næsta ári. Erindi Katrínar á vef menntamálaráðuneytis.
Elna Katrín Jónsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands fjallaði um skilyrði til tungumálakennslu í grunn- og framhaldsskólum og kom víða við. Hún ræddi m.a. námsskilyrði nemenda, menntun kennara, viðhorf til tungumálanáms og áhrif samdráttar á nám og kennslu í tungumálum; mikilvægi þess að tryggja nemendum áfallalausa ferð milli skólastiga og samfellu í tungumálanámi sínu. Kallaði hún eftir stefnu og viðmiðum menntayfirvalda í námi og kennslu erlendra tungumála í menntakerfinu og eftirfylgni með athöfnum. Hún benti á það tækifæri sem tungumálakennarar hefðu nú til að ná vopnum sínum og koma að ritun námskrár til að ná eignarhaldi á faglegri þróun mála. Lengingu kennaranáms sagði hún fylgja aukin krafa bæði um dýpt og breidd m.t.t. sérhæfingar kennara í kennslugrein eða sérsviði. Erindi Elnu má sjá hér í heild sinni.
Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur ræddi um ræddi tilgang tungumálanáms, markmið þess og inntak. Sýndi hún fram á hvernig góð tungumálamenntun hefur sögulega mótað og auðgað menningu, listir og þjóðlíf Íslendinga og hversu gríðarlegt gildi tungumálaþekking hefur fyrir atvinnulífið á tækniöld í samskiptum við útlönd. Auður varaði við gengisfellingu tungumálanáms bæði í grunn- og framhaldsskólum ef ekki verður ráðist í endurbætur á núverandi námsskrá með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir tungumálanam í háskólum hér heima sem og möguleikum námsmanna á framhaldsmenntun erlendis. Sjá erindi Auðar í heild.
Þá lásu Thor Vilhjálmsson og Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundar las texta sína úr bókinni Tungumál ljúka upp heimum -- Orð handa Vigdísi. Bókin kom út í fimm tölusettum eintökum 26. september sl. á Evrópska tungumáladeginum, og er væntanleg innan tíðar í almenna sölu. Bókin var framlag skáldanna og prentsmiðjunnar Odda til Alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar og rennur ágóði af sölu bókarinnar þangað. Bókin er mikill innblástur þeim sem bera hag tungumála fyrir brjósti og eru tungumálakennarar hvattir til að tryggja sér eintak og benda áhugasömum nemendum á bókina.
Deginum lauk með pallborðsumræðum þar sem Auður Hauksdóttir, Elna Katrín Jónsdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, formaður STÍL og Berglind R. Magnúsdóttir, ráðgjafi ráðherra í menntamálum sátu fyrir svörum. Voru umræður voru mjög líflegar og hugur í þáttakendum um að efla hlut tungumála í menntakerfinu og tryggja stöðu þeirra við endurskoðun námskrár og kalla þannig fram tækifærin sem liggja í tungumálunum.