Evrópski tungumáladagurinn 2012
Í tilefni Evrópska tungumáladagsins 26. september efnir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur til leiks á Facebook-síðu sinni þar sem almenningur getur unnið bækur og klippikort á kvikmyndahátíðina RIFF.
Leiknum er ætlað að hvetja fólk til að leiða hugann að erlendum tungumálum og rifja upp þekkingu sína á þeim. Tveimur myndskeiðum hefur verið dreift á netinu þar sem fólk er hvatt til þátttöku. Á öðru myndskeiðinu eiga þátttakendur að geta sér til um hvaða tungumál eru töluð en á hinu er spurt um uppáhaldsorð á erlendu tungumáli.
Klippikort á RIFF verða afhent heppnum þátttakendum 28. september og bókaverðlaun þann 1. október.
Frétt á heimasíðu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
AÐALFUNDUR STÍL HEIÐRAR LAGVISSA KOLLEGA
Aðalfundur STÍL 2012 var haldinn föstudaginn 2. mars í Hannesarholti á Grundarstíg 10. Það var vel mætt og fundurinn gekk greiðlega fyrir sig. Að loknum aðalfundi gæddu fundarmenn sér á dýrindis kjúklingasúpu og heimabökuðu brauði og glöddust yfir góðu dagsverki.
Formannaskipti urðu á fundinum, þar sem Brynhildur A. Ragnarsdóttir dönskukennari og forstöðumaður Tungumálaversins tók við formennsku af Ragnheiði Jónu Jónsdóttur enskukennara, sem gengt hefur formennsku í tæp þrjú ár, eða frá vori 2009. Ragnheiður þakkaði samstarfsfólki sínu vel unnin störf og gladdist yfir því að færa samtökin í hendur Brynhildar, sem utan þess að vera dugnaðarforkur til allra verka, er stofnfélagi STÍL og þekkir sögu þess gjörla. Því kvað hún Brynhildi vera ákjósanlegan formann á réttum tíma, þegar ný námskrá þarfnast skarprar athygli félagsmanna.
Því næst mættu fulltrúar tónmenntakennara og kórstjóra á svæðið til að taka við heiðursviðurkenningu frá samkennurum í STÍL. Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, fráfarandi formaður, afhenti formanni tónmenntakennarafélagsins, Þórdísi Sævarsdóttur, bókina Tungumál ljúka upp heimum - orð handa Vigdísi, sem þakklætisvott og heiðursgrip frá tungumálakennurum.
Sá útbreiddi siður sem tíðkast hefur lengi í kórstarfi á Íslandi að kenna og flytja lög frá öllum heimshornum á hinum margvíslegustu tungumálum hefur þá dýrmætu hliðarverkun að efla áhuga á erlendum tungumálum. Kennarar glöddust saman og tóku lagið eins og vera bar, á nokkrum tungumálum. Það var mál manna að þessar tvær stéttir kennara þyrftu að auka samvinnu, báðum til eflingar, og minnstu munaði að í hita leiksins væri stofnað nýtt félag. Kórstjórar höfðu á því orð að þeir hefðu aldei fyrr fengið slíka viðurkenningu frá kollegum, og sitjum við tungumálakennarar sáttir undir því að hafa bætt mannlífið örlítið á dimmum vetrardegi og skilað gleði aftur til baka til þeirra sem gjarnan dreifa henni til annarra.
RJ